Þjóðhátíðarlögin
Allt frá því fyrsta þjóðhátíðarlagið varð formlega til 1933 hefur þjóðhátíðarlag verið fastur og ómissandi liður í Þjóðhátíð Vestmannaeyja hvert ár. Oddgeir Kristjánsson samdi þjóðhátíðarlögin óslitið allt til þess er hann féll frá langt um aldur fram 1966, en allan tímann höfðu þeir samið flesta textana Árni úr Eyjum og Ási í Bæ auk Lofts Guðmundssonar. Eftir fráfall Oddgeirs voru gömul lög eftir hann gerð að þjóðhátíðarlögum en allt frá 1969 hafa nýjir lagasmiðir og textahöfundar komið við sögu.
Rauður þráður er í gegnum sögu þjóðhátíðarlaganna að bæði lagið og textinn verða að standast fyllstu kröfur til þess að lagið geti staðið fyrir sínu til lengri tíma og bæði lag og texti falli saman.
Hérna er hægt að hlusta á öll lögin, fyrir utan nokkur sem ekki hafa varðveist í frumútgáfu né verið gefin út, eða eru óaðgengileg á Spotify. Laufey Jörgensdóttir tók saman lögin og kom þeim inn á tónlistarveituna við vinnslu á bók sinni "Undurfagra ævintýr" sem kom út sumarið 2019, þar rekur hún sögu þjóðhátíðarlaganna frá upphafi m.a. eru textar og gítargrip allra laganna í bókinni.