Saman gegn ofbeldi!

Yfirlýsing ÍBV Íþróttafélags gegn ofbeldi

Ofbeldi er samfélagslegt vandamál. Ábyrgð á ofbeldisverki ber gerandinn einn. Aldrei má deila þeirri ábyrgð; hvorki á fórnarlambið né aðstæður eða umhverfi. Gerandinn ber einn alla sök. Þeir sem standa að Þjóðhátíð Vestmannaeyja munu aldrei samþykkja eða þagga niður ofbeldisverk, hvort sem þau eru framin á vettvangi hátíðarinnar eða annars staðar.ÍBV íþróttafélag fordæmir allt ofbeldi harðlega, - og eru þolendur og vitni hvött til að tilkynna um öll slík mál til lögreglu, gæsluaðila, áfallateymis eða annarra aðila sem að málum þessum koma. Þolendur ofbeldis munu alltaf hafa fullan stuðning þeirra sem standa að Þjóðhátíð og munu hagsmunir þeirra ávallt vera í fyrirrúmi þegar kemur að viðbrögðum og úrvinnslu.

Er allt í lagi?

Þjóðhátíðarnefnd hefur áður tekið þátt í öflugum forvarnarverkefnum líkt og Bleika fílnum, Sofandi samþykkir ekkert og Verum vakandi. Árið 2025,  mun þjóðhátíðarnefnd hefja átak undir heitinu „Er allt í lagi?“ Skilaboðin eru einföld og skýr og til þess ætluð að minna okkur á að gæta að okkur sjálfum og að hvort öðru. Auðvelt er að spyrja „Er allt í lagi?“ og flestum þykir í lagi að vera spurðir.Þannig eru gestir hátíðarinnar hvattir til þess að kanna aðstæður óhikað og spyrja einfaldlega „Er allt í lagi?“ Ef svo er ekki er hægt að hafa samband við 112 í síma, á vefnum eða í appinu. Einnig er hægt að ná í gæsluliða sem koma málinu í réttan farveg. Munum að hugboð geta verið rétt og spyrjum því oftar en sjaldnar.
Merki átaksins verður áberandi og varningur merktur átakinu til sölu á hátíðarsvæðinu. Eru gestir hátíðarinnar hvattir til þess að skarta fyrirliðaböndum til merkis um ábyrgð okkar allra að berjast gegn ofbeldi. Skemmtikraftar, gæsluaðilar og aðrir starfsmenn hátíðarinnar munu skarta böndunum.
Þjóðhátíðarnefnd leggur mikla áherslu á að hátíðargestir skemmti sér vel og fallega þannig að allir gestir fari til síns heima sáttir og sælir að hátíð lokinni. Ítrekað er að þeir sem að þjóðhátíð koma fordæma allt ofbeldi, munu ávallt gæta að hagsmunum þolanda og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja öryggi hátíðargesta.

Þjóðhátíð gegn ofbeldi

Á vegum þjóðhátíðarnefndar starfar reynslumikið áfalla-, forvarnar,- og sálgæsluteymi. Teymið starfar náið með ÍBV og þjóðhátíðarnefnd með eftirfarandi að leiðarljósi:

Að marka stefnu og koma með ábendingar um hvernig stuðla megi að fækkun ofbeldisbrota á Þjóðhátíð.

Að koma með tillögur að forvörnum, hvernig megi höfða til dómgreindar fólks, stuðla að vitundarvakningu gegn ofbeldi  og að hvetja Þjóðhátíðargesti til að sýna árvekni.

Teymið mun, í samráði við Þjóðhátíðarnefnd, skoða alla þá þætti sem mögulega geta stuðlað að auknu öryggi gesta.

Við notum vafrakökur til að safna og greina upplýsingar um notkun og virkni vefsíðunnar, til að geta notað lausnir frá samfélagsmiðlum og til að bæta efni og birta viðeigandi markaðsefni.