GEGN OFBELDI!

 

Yfirlýsing ÍBV Íþróttafélags gegn ofbeldi

 

Ofbeldi er samfélagslegt vandamál. Ábyrgð á ofbeldisverki ber þó gerandinn einn. Aldrei má deila þeirri ábyrgð; hvorki á fórnarlambið né aðstæður og umhverfi. Gerandinn ber einn alla sök. Þeir sem standa að Þjóðhátíð Vestmannaeyja munu aldrei samþykkja eða þagga niður ofbeldisverk, hvort sem þau eru framin á vettvangi hátíðarinnar eða annars staðar.

ÍBV Íþróttafélag fordæmir allt ofbeldi harðlega - og eru þolendur og vitni hvött til að tilkynna um öll slík mál til lögreglu, gæsluaðila, áfallateymis, eða annarra aðila sem að málum þessum koma. Þolendur ofbeldis munu alltaf hafa fullan stuðning þeirra sem standa að Þjóðhátíð og munu hagsmunir þeirra ávallt vera í fyrirrúmi þegar kemur að viðbrögðum og úrvinnslu.

 

Stýrihópur Þjóðhátíðar gegn ofbeldi

 

Leiðarljós og stefnulýsing hópsins er eftirfarandi:

Að marka stefnu og koma með ábendingar um hvernig stuðla megi að fækkun ofbeldisbrota á Þjóðhátíð.

Aðalháherslur stýrihópsins verða að koma með tillögur að forvörnum, hvernig megi höfða til dómgreindar fólks, stuðla að vitundarvakningu gegn kynferðisofbeldi sem og öllu ofbeldi og hvetja Þjóðhátíðargesti til að sýna árvekni.

Stýrihópurinn mun einnig, í samráði við Þjóðhátíðarnefnd og Bleika fílinn skoða alla þá þætti sem mögulega geta stuðlað að auknu öryggi gesta og styðst þar við ráðleggingar fagaðila, reynslu áfallateymis og lögreglu af málum undanfarinna ára og þá staðbundnu reynslu sem er af hátíðarhaldi í Vestmannaeyjum.

Árið 2018 fór stýrihópurinn í samstarfi við Þjóðhátíðarnefnd og Bleika fílinn í herferðina "Sofandi samþykkir ekkert".

 

 

 

 

Bleiki fíllinn

 

Þjóðhátíðarnefnd hefur starfað með Bleika fílnum forvarnarhópi frá árinu 2012.

Nauðgun er glæpur sem enginn vill ræða en við vitum öll að á sér stað, líkt og bleiki fíllinn í stofunni. Þaðan er komin þessi nafngift átaksins "Bleiki fíllinn". Farið var af stað með átakið með það markmið að fá fólk til að ræða sman og horfast í augu við þennan glæp. Að undirstrika mikilvægi samþykkis í kynlífi. Að sá eini sem ber ábyrgð á nauðgun er sá sem nauðgar. Vertu með okkur, ræðum saman um samþykki og hættum að láta brotaþola sitja uppi með ábyrgðina og skömmina. Ef við vitum af bleikum fílum, látum þá vita að við viljum þá ekki í okkar liði.

Hugmyndin að forvarnarhópnum varð til sumarið 2012. Það sumar var gegnin Drusluganga í annað skiptið á Íslandi. Fyirr gönguna setti kona í Vestmannaeyjum frásögn af sinni nauðgun inn á Facebook og nefndi að hún óskaði þess að geta sýnt stuðning og gengið Druslugönguna í Reykjavík. Þetta gerðist þremur dögum fyrir umrædda göngu.

Jóhanna Ýr Jónsdóttir sá færsluna og vildi leggja sitt af mörkum. Hún fékk fólk í lið með sér og meðal annarra konuna sem hafði stigið fram og sagt sögu sína. Í framhaldinu var á mettíma skipulögð fyrsta Druslugangan í Eyjum. Aðstandendum göngunnar fannst viðeigandi að hefja hana í Herjólfsdal, í ljósi umræðu um kynferðisbrot í tengslum við Þjóðhátíð Vestmannaeyja.

Við lok göngunnar hélt Jóhanna Ýr ræðu þar sem hún talaði um bleika fílinn í stofunni sem yrði að horfast í augu við: Nauðgun. Í þvögunni stóðu þáverandi stjórnendur Þjóðhátíðarnefndar og úr varð samstarf um átak gegn kynferðisofbeldi sem í daglegu tali er kallað "Bleiki fíllinn".

Auk forvarnarstarfsins hefur Þjóðhátíðarnefnd látið setja upp öryggismyndavélar víðsvegar um Dalinn, en það var gert fyrst árið 2012 og hafa haft salernisaðstöðu kynjaskipta frá árinu 2014.

Fjöldi lögreglumanna og kvenna eru á svæðinu allan sólarhringinn auk þess sem tugir gæslufólks eru í Dalnum alla helgina. Þar á meðal eru bráðatæknar og neyðarflutningamenn á sjúkrabílum. Læknir er á sólarhringsvakt í Herjólfsdal og sjúkraskýlið er aðeins 233 metra frá Brekkusviðinu.

Sálgæsla hefur verið í boði í fjölda mörg ár í samstarfi við félagsþjónustuna og sjúkrahúsið. En frá 2011/2012 voru gerðar nýjar vinnureglur og sérfræðingur fór yfir verkferla og voru þeir endurbættir. Í kjölfarið var sett á fót áfallateymi og í því starfar fagmenntað starfsfólk með margra ára starfsreynslu í félagsþjónustu og áfallavinnu, s.s. sálfræðingar, félagsráðgjafar og annað fagfólk á sviði félags- og heilbrigðisþjónustu. Teymið er á vakt allan sólarhringinn frá fimmtudagskvöldi fram á mánudagskvöld. Doktor í sálfræði stýrði teyminu fyrstu árin.

Heimamenn og gestir Þjóðhátíðar hafa tekið forvarnarstarfi Bleika fílsins og Þjóðhátíðarnefndar opnum örmum og sýnt verkefninu stuðning, hvort sem það er að kaupa varning til styrktar átakinu eða að passa uppá nágungann. Það vill enginn hafa Bleikan fíl í sínu liði.

Forvarnarhópurinn hefur aðallega starfað í kringum Þjóðhátíð en hefur líka forgöngu um að fá Samþykkishópinn til að koma í heimsókn á unglingastig Grunnskólans í Vestmannaeyjum þar sem myndin "Fáðu já!" var sýnd og rædd.

Við viljum opna umræðuna, nauðgun er ofbeldisglæpur sem hefur grafalvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir fórnarlambið og ekkert réttlætir slíkt.

Ef samþykkið vantar, er það nauðgun.

Ef það hefur ekki heyrst skýrt já, þá er það nauðgun.

 

Bleiki fíllin á Facebook

Fáðu já!

Druslugangan