Útgáfa

 

Fólkið í Dalnum 

Heimildarmynd um Þjóðhátíð Vestmannaeyja

 

 

Í kringum Þjóðhátíðina árið 2013 kviknaði hugmynd að gerð heimildarmyndarinnar hjá undirrituðum. Að okkar mati var og er löngu kominn tími til að skrásetja þessa mögnuðu sögu í formi heimilidarmyndar. Árið 2014 hófumst við handa þegar liðin voru 140 ár frá því fyrst var haldin Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum

Upphaflega var ætlunin að gera einni hátíð skil í stuttri heimildarmynd. Fljótlega kom í ljós að það væri ekki raunhæft fyrir eitt tökulið að fanga viðburðinn með upptökum á einni hátíð. Undanfarin fimm ár hafa undirritaðir unnið að gerð heimildarmyndar um Þjóðhátíð.

Afraksturinn er mjög mikið af efni frá síðustu fimm hátíðum. Tekin hafa verið á annað hundrað viðtöl við fólk sem tengist hátíðinni með einum eða öðrum hætti og ætla má að annað myndefni telji nokkra tugi klukkutíma.

 

 

 

 

Undurfagra ævintýr

Þjóðhátíðarlög Vestmannaeyja og Þjóðhátíðarmenning

1933 - 2019

 

Undurfagra ævintýr er bók um þjóðhátíðarlög Vestmannaeyja 1933 - 2019. Bókin kom út sumarið 2019 í tilefni hundrað fjörutíu og fimm ára afmælis Þjóðhátíðar og hundrað ára afmælis Vestmannaeyjabæjar.

Tæp níutíu ár eru liðin frá útgáfu fyrsta þjóðhátíðarlags Vestmannaeyja og síðan þá hafa fjölmargar tónlistarperlurnar verið þræddar á festi langrar sögu Þjóðhátíðar. Alls eru þjóðhátíðarlögin orðin sjötíu og sjö talsins og liggja þar dýrmæt menningarverðmæti sem mikilvægt var að skrá og varðveita á einum stað, sannkallaður þjóðararfur.

Bókin er unnin í samstarfi við Sögur útgáfu. Útgáfan er vegleg og í henni er að finna öll þjóðhátíðarlögin okkar frá 1933 í tímaröð með textum, gítarhljómum og -gripum, ásamt viðtölum við ýmsa höfunda og flytjendur. Fjölmargt annað sögulegt efni er í bókinni ásamt ýmsu skemmti- og ítarefni. Hún er ríkulega skreytt fallegum ljósmyndum og enn fremur er hægt að hlusta á þjóhátíðarlögin beint af síðum bókarinnar með því að skanna kóða viðkomandi lags.

Með útgáfu bókarinnar lyftir Eyjapæjan Laufey Jörgensdóttir löngu tímabæru grettistaki. Laufey hefur farið á yfir fjörutíu Þjóðhátíðir, ann þjóðhátíðarlögunum af lífi og sál og hefur einlægan áhuga á íslenskri tónlist og sögu. Ómetanlegur er þáttur Hafsteins Guðfinnssonar við ritun og hljómasetningu á elstu þjóðhátíðarlögunum. Langþráður draumur um varðveislu og útgáfu perlanna úr Eyjum rættist loks með dyggri aðstoð áhugafólks og velunnara sem lögðu til texta, sögur, minningar, myndir og nafn sitt í nafnaskrá hollvina bókarinnar.

Með bókinni fylgir spilunarlisti á Spotify sem Laufey tók saman í samstarfi við Alda music: Þjóðhátíðarlög Vestmannaeyja

Undurfagra ævintýr er menningargripur sem ætti að vera skyldueign á hverju einasta Eyjaheimili, í hvítu tjöldunum og hjá öllum þeim fjölmörgu sem unna Þjóðhátíð og tónlist hennar.

Smelltu hér til að kaupa bókina í vefverslun Sögur útgáfu og fáðu hana senda heim að dyrum.